Stendur hér og gargar ...

Um klukkan eitt í dag (20. janúar 2009) upphófust hávær mótmæli við alþingishúsið hér í "borg óttans" sem svo hefur verið kölluð, þar sem alþingi var nýkomið saman eftir hið vanalega undarlega langa jólafrí. (Sumarfrí þingheims er að vísu 3 mánuðir held ég. Á fullum launum.) Sagnfræðingar fullyrða nú þegar að sambærileg mótmæli hafa ekki átt sér stað síðan 1949 þegar inngöngu Íslands í NATO var mótmælt.

Mótmælin standa enn yfir þegar þetta er skrifað u.þ.b. 12 klukkustundum eftir að þau hófust. Þess er krafist að ríkisstjórnin axli ábyrgð vegna bankahrunsins, segi af sér tafarlaust og að boðað verði til kosninga sem fyrst. Fólk lemur potta og pönnur, fötur, bala og allt mögulegt sem það hefur fundið í geymslum sínum og farlama kerlingar lemja í ljósastaura með hækjum sínum.

Breiðfylkingar óeirðarlögreglumanna standa vörð um alþingishúsið útataðir í ýmsum landbúnaðarafurðum svo sem skyri, eggjum o.fl., spreyjandi eiturefnum á mannfjöldann að því er virðist af handahófi og tilefnislaust. Fjöldi manns hefur verið handtekinn í dag og í kvöld og óljóst er hversu lengi mótmælin munu standa enn. Vonandi bera þessi mótmæli meiri árangur en mótmælin árið 1949.geirvsogm

Inni í alþingishúsinu sjálfu ríkti gríðarleg spenna í dag og forseti alþingis, Sturla Böðvarsson sagðist ekki muna annað eins. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 voru sýnd m.a. myndskot af orðaskaki milli þeirra Ögmundar Jónassonar og Geirs H. Haarde. Ögmundur tók í meginatriðum í sama streng og mótmælendurnir fyrir utan. Froðufellandi af bræði stóð hann í ræðupúltinu æpandi að forsætisráðherranum undir klingjandi bjöllu alþingisforsetans. Geir gekk síðan erfiðlega að svara fyrir sig vegna framíkalla Ögmundar og gjammaði þá eins og honum einum er lagið: "Það er ekki hægt að eiga orðastað við þennan þingmann háttvirtur forseti. Hann stendur hér og gargar eins og hann sé að tala á útifundi." Fyrirlitning forsætisráðherrans á útifundum og mótmælendum almennt leyndi sér ekki í þessum orðum hans. Mælt í hita augnabliksins en segir sitt.

Um miðnættið var norska jólatréð síðan slitið upp af festingum sínum og dregið á bálköst nokkurn sem kveikt hafði verið í rétt hjá alþingishúsinu fyrr um kvöldið. Þar skíðlogaði það glatt og brann til ösku, rétt eins og ríkisstjórnin mun væntanlega gera innan skamms. Norskt jólatré. Norskættaður stjórnarleiðtogi. Táknræn athöfn.

Sannarlega merkisdagur, svo vægt sé til orða tekið.

brenna01


mbl.is Jólatréð brennt á bálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband