Takmarkalaust vald

ValdabaráttaBaráttan milli góðs og ills í íslenskum stjórnmálum heldur áfram og virðist vera að nálgast dramatískan hápunkt. Einn af mörgum sem á undan hafa gengið og annarra sem munu án efa fylgja í kjölfarið. Gamli keisarinn Davíð Oddsson neitar að segja af sér bankastjórastöðunni þrátt fyrir skýr tilmæli þess efnis frá nýja forsætisráðherranum, Heilagri Jóhönnu. Hann hafði komið ár sinni svo vel fyrir borð meðan hann sat á valdastóli og tryggt stöðu sína svo kyrfilega að ekki einu sinni forsætisráðherra landsins getur sagt honum upp störfum sem seðlabankastjóra nema með tilkomu nýrrar lagasetningar sem þarf að samþykkja á alþingi. Svona ný lagasetning er nú tilbúin og Jóhanna segist ekki eiga von á öðru en að hún verði samþykkt og afgreidd fljótt og örugglega í gegnum þingið. En er það svo víst? Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála.

Mun kannski koma í ljós að vald gamla keisarans er ennþá alveg takmarkalaust? Er hann að kippa í einhverja spotta og strengjabrúður? Mun hann jafnvel nota sambönd sín innan Bilderberg hópsins svokallaða, lang-valdamesta saumaklúbbs veraldar til að tryggja áframhaldandi völd sín eða hefur hann kannski þegar gert það? Hver eru þessi tæknilegu atriði í nýja seðlabankalagafrumvarpinu sem IMF(Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) hefur gert athugasemdir við? Forvitnilegt.

Mikilvægt peðAllir vita hversu þrjóskur og langrækinn Davíð er(og kannski Jóhanna líka?) og því verður spennandi að sjá hvaða þrusuleikjum verður leikið á taflborði valdanna næst. Verða það sleggjur og gafflar? Eða úthugsaðir peðs-leikir sem leiða til óhjákvæmilegs kæfingarmáts Heilagrar Jóhönnu í 74. leik eftir næstu kosningar? Kemur upp pattstaða eða mun gamli einvaldurinn einfaldlega leika sjálfan sig í heimaskítsmát? Spennandi.

Á meðan öllu þessu fer fram fjölgar svo atvinnulausum og hungurmorða vesalingum á methraða.
Segi svona ...


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stendur hér og gargar ...

Um klukkan eitt í dag (20. janúar 2009) upphófust hávær mótmæli við alþingishúsið hér í "borg óttans" sem svo hefur verið kölluð, þar sem alþingi var nýkomið saman eftir hið vanalega undarlega langa jólafrí. (Sumarfrí þingheims er að vísu 3 mánuðir held ég. Á fullum launum.) Sagnfræðingar fullyrða nú þegar að sambærileg mótmæli hafa ekki átt sér stað síðan 1949 þegar inngöngu Íslands í NATO var mótmælt.

Mótmælin standa enn yfir þegar þetta er skrifað u.þ.b. 12 klukkustundum eftir að þau hófust. Þess er krafist að ríkisstjórnin axli ábyrgð vegna bankahrunsins, segi af sér tafarlaust og að boðað verði til kosninga sem fyrst. Fólk lemur potta og pönnur, fötur, bala og allt mögulegt sem það hefur fundið í geymslum sínum og farlama kerlingar lemja í ljósastaura með hækjum sínum.

Breiðfylkingar óeirðarlögreglumanna standa vörð um alþingishúsið útataðir í ýmsum landbúnaðarafurðum svo sem skyri, eggjum o.fl., spreyjandi eiturefnum á mannfjöldann að því er virðist af handahófi og tilefnislaust. Fjöldi manns hefur verið handtekinn í dag og í kvöld og óljóst er hversu lengi mótmælin munu standa enn. Vonandi bera þessi mótmæli meiri árangur en mótmælin árið 1949.geirvsogm

Inni í alþingishúsinu sjálfu ríkti gríðarleg spenna í dag og forseti alþingis, Sturla Böðvarsson sagðist ekki muna annað eins. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 voru sýnd m.a. myndskot af orðaskaki milli þeirra Ögmundar Jónassonar og Geirs H. Haarde. Ögmundur tók í meginatriðum í sama streng og mótmælendurnir fyrir utan. Froðufellandi af bræði stóð hann í ræðupúltinu æpandi að forsætisráðherranum undir klingjandi bjöllu alþingisforsetans. Geir gekk síðan erfiðlega að svara fyrir sig vegna framíkalla Ögmundar og gjammaði þá eins og honum einum er lagið: "Það er ekki hægt að eiga orðastað við þennan þingmann háttvirtur forseti. Hann stendur hér og gargar eins og hann sé að tala á útifundi." Fyrirlitning forsætisráðherrans á útifundum og mótmælendum almennt leyndi sér ekki í þessum orðum hans. Mælt í hita augnabliksins en segir sitt.

Um miðnættið var norska jólatréð síðan slitið upp af festingum sínum og dregið á bálköst nokkurn sem kveikt hafði verið í rétt hjá alþingishúsinu fyrr um kvöldið. Þar skíðlogaði það glatt og brann til ösku, rétt eins og ríkisstjórnin mun væntanlega gera innan skamms. Norskt jólatré. Norskættaður stjórnarleiðtogi. Táknræn athöfn.

Sannarlega merkisdagur, svo vægt sé til orða tekið.

brenna01


mbl.is Jólatréð brennt á bálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband